Erlent

Gerólíkur öðrum krókódílum

Dakosaurus. Til vinstri sést ljósmynd af höfuðkúpunni en til hægri er tölvugerð mynd af höfði skepnunnar eins og vísindamenn telja það hafa litið út.
Dakosaurus. Til vinstri sést ljósmynd af höfuðkúpunni en til hægri er tölvugerð mynd af höfði skepnunnar eins og vísindamenn telja það hafa litið út.

Vísindamenn hafa fundið hauskúpu af sjávarkrókódíl sem svamlaði um heimsins höf fyrir 135 milljónum ára.

Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna kynnti rannsóknir sínar á hauskúpunni í fyrradag í vef­útgáfu tímaritsins Science en tæp tíu ár eru síðan kúpan fannst á fornum sjávarbotni í Argentínu. Hún er talin vera af tæplega fjögurra metra langri risaeðlu sem var uppi á júratímabilinu. Beinaleifar benda til að hún hafi haft fjórar sundblöðkur og sporð.

"Þetta dýr var að líkindum það síðasta af sinni ætt og án efa það furðulegasta í hópi sjávarkrókó­díla," sagði Diego Pol, einn vísindamannanna, í samtali við AP-fréttastofuna. Það eru orð að sönnu því trjóna dýrsins er mun styttri en sú sem krókódílar ­skarta yfirleitt og tennurnar eru stórar og sagarlaga.

Af því draga vísindamennirnir þá ályktun að aðalfæða Godzilla, eins og þeir eru þegar farnir að kalla kvikindið sem á latínu nefnist Dakosaurus andiniensis, hafi verið stórar sjávarskepnur. Af þeim var nóg í höfunum á þessum tíma eins og hinar 22 metra löngu hvaleðlur eru dæmi um. Ekki er þó talið að Godzilla hafi getað lagt sér slíkar ófreskjur til munns, þrátt fyrir sagar­tennurnar ógurlegu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×