Lífið

Eins sjarmerandi og búist var við

Þær urðu nokkuð undrandi í gær, konurnar í Kirsuberjatrénu, þegar Bill Clinton mætti í búðina og gerði sér lítið fyrir og keypti af þeim nokkrar skálar. "Hann er eins sjarmerandi maður og ég bjóst við," segir Ólöf Erla Bjarnadóttir sem var að afgreiða í búðinni og viðurkennir að hún sé aðdáandi þessa fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hvort tveggja hvað pólitík og sjarma snertir. "Ég vissi ekkert að hann var að koma. Það kemur hingað blökkukona, svona formlega klædd og lítur inn í búðina. Sem betur fer var enginn inni í búðinni á þeim tíma. Svo brosti hún og hann kom siglandi inn. Þetta var voða gaman og óvænt þegar kemur svona heimsfrægur maður sem ég stend augliti til auglitis við." Í Kirsuberjatrénu eru tíu hönnuðir sem sem vinna allir hver með sitt efni og því segir Ólöf að það sé eðiliegt að beina fólki í búðina. Í þetta sinn keypti Clinton fimm skálar eftir Valdísi Harrysdóttur, auk þess sem einn úr fylgdarliði hans keypti tvær skálar eftir sama hönnuð. "Þær eru úr pappamassa með örþunnum sneiðum af grænmeti sem gerir þær litríkar og fallegar. Þær eru alveg einstakar, ég hef ekki séð neinn annan gera svona. Clinton fannst margt hérna fallegt þrátt fyrir að stoppa ekki lengi við í búðinni. Hann stoppaði alveg ákveðið við þetta. Svo tók hann í höndina á mér. Það nægir mér alveg." Fréttablaðið hefur einnig heyrt að Hillary Clinton hafi fengið gjöf frá forsætisráðuneytinu sem keypt var í Kirsuberjatrénu og var það taska úr roði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.