Erlent

Smáríki gegna stóru hlutverki

Minni ríki innan Evrópusambandsins munu hafa mikil áhrif í nýskipaðri framkvæmdastjórn sambandsins undir forsæti Portúgalans Jose Manuels Barroso. Stóru ríki þrjú; Þýskaland, Frakkland og Bretland, munu þó fara með stjórn efnahagsmála að mestu. Hollendingar munu fara með stjórn samkeppnismála og ríkisstyrkja, en sú er talin ein sú valdamesta innan framkvæmdastjórnarinnar. Innri markaðurinn verður í höndum fulltrúa Írlands og Lettar munu sjá um skatta- og tollamál. Aðkoma þessara smáu ríkja að svo veigamiklum málaflokkum er talin eiga að undirstrika endurbætur á valdahlutföllum innan sambandsins. Hvert aðildarríki ESB tilnefnir einn fulltrúa til setu í framkvæmdastjórninni. Athygli vekur hversu margir atkvæðamiklir stjórnmálamenn taka nú sæti þar og má þar nefna þrjá fyrrverandi forsætisráðherra, fimm utanríkisráðherra og þrjá fjármálaráðherra. Nýja framkvæmdastjórnin tekur formlega við völdum 1. nóvember og mun sitja í fimm ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×