Erlent

Sögufrægur glæpamaður skotinn

Indverskur glæpamaður sem sakaður er um að hafa myrt meira en 130 manns á nokkurra áratuga glæpaferli sínum var skotinn til bana í skotbardaga við lögreglu í fyrri nótt. Þar með lauk nærri fjörutíu ára glæpaferli hans sem varð kveikjan að gerð kvikmyndar og tilefni margra samsæriskenninga. Hinn sextugi Koose Muniswamy Veerappan fékkst aðallega við smygl á fílabeini og sjaldgæfum sandelviði. Hann átti í stöðugum útistöðum við lögreglu á þessu tímabili og var stærstur hluti þeirra á annað hundrað einstaklinga sem hann myrti lögreglumenn. Hann er einnig sagður hafa hengt alla þá sem hann grunaði um að njósna um sig fyrir lögreglu. Veerappan varð frægur fyrir glæpi sína og lán sitt við að sleppa úr greipum lögreglunnar. Frægð hans var sögð jafnast á við frægð helstu kvikmyndastjarna Indlands og það varð ekki til að draga úr frægð hans þegar hann rændi einum frægasta leikara landsins. Lán hans við að sleppa úr höndum lögreglu virtist, þar til í fyrri nótt, engan enda ætla að taka og hallast því margir að því að hann hafi notið verndar stjórnvalda eða stjórnenda lögreglunnar. Engin staðfesting hefur þó fengist á því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×