Erlent

Taugaveiklun veldur olíuhækkun

Taugaveiklun er talin ein meginástæða síhækkandi olíuverðs. Sérfræðingar segja að verðið á olíufati geti enn hækkað en verðlækkun sé ekki í sjónmáli. Síðdegis var verðið á olíufatinu komið vel yfir 47 dollara og svo virðist sem það sé enn að hækka. Hátt eldsneytisverð hefur enn engin áhrif haft á neyslu og þar með efnahagslífið í Bandaríkjunum og er það talin ástæða hækkunarinnar í gær. Talið var að hátt eldsneytisverð leiddi til minni neyslu, en sem svo virðist ekki vera telja sérfræðingar að enn sé svigrúm til hækkunar. Það sem af er þessu ári hefur eldsneytisþörf Bandaríkjanna aukist um þrjú og hálft prósent. Enn ein ástæða hækkana á þessu ári er stóraukin þörf í Kína. Hún jókst um 21 prósent á fyrri helmingi þessa árs, og olíuinnflutningur jókst um 40 prósent. Ekki eru þó allir sérfræðingar sammála um að þessir þættir séu ráðandi, og telja frekar að taugaveiklun sé ástæða hás olíuverðs. Meginástæða hækkana í dag er til að mynda ótti við skemmdarverk á olíuleiðslum í Írak. Meðal þess sem margir óttast, er að ekki sé hægt að auka framleiðslu enn frekar og að framleiðslan dugi von bráðar ekki til. Vandinn virðist einkum vera sá, að ekki hefur verið fjárfest í olíuvinnslustöðvum í hart nær þrjá áratugi, þó að víða sé hægt að bora eftir olíu. Aðrir hafa áhyggjur af helstu olíuframleiðsluríkjum heims, sem teljast velflest fremur óstöðug. Sádi-Arabía, Írak, Rússland, Venesúela og Nígería eru í þessum hópi. Batnandi efnahagsástand á heimsvísu veldur sífellt meiri eftirspurn eftir eldsneyti, og því telja margir sérfræðingar að verðið á olíufatinu gæti farið yfir 50 dollara. Það sem af er ári hefur olíuverð hækkað um 45 prósent, og ekkert bendir til þess að það lækki í bráð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×