Erlent

Jarðsettur í skugga óvissu

Leiðtogi Palestínumanna var jarðsettur í skugga sorgar og átaka í dag. Enginn veit hvað varð Jassir Arafat að aldurtila, og þó að hann hafi verið grafinn hefur hann ekki enn verið lagður til hinstu hvílu. Útför Arafats fór fram í Kæró í morgun og voru tugir þjóðarleiðtoga viðstaddir hana. Almenningi var þó haldið fjarri. Að útförinni lokinni var flogið með kistu Arafats til Vesturbakkans, þar sem öryggisverðir urðu að skjóta upp í loft til að bægja mannfjöldanum frá kistunni. Hafsjór syrgjenda réðst að líkburðarmönnunum en að lokum tókst þó að flytja leiðtogann til höfuðstöðva sinna í Ramalla, þar sem hann var jarðsettur í steinkistu í flýti. Upphaflega átti hann að liggja á viðhafnarbörum svo að syrgjendur gætu vottað honum virðingu sína, en í ljósi múgæsingarinnar var snarlega hætt við það. Tugir þúsunda klifruðu yfir veggi og vegtálma í kringum greftrunarstaðinn og ljóst er að pílagrímar munu heimsækja hann á næstunni. Palestínskir embættismenn sögðust í viðtölum við fjölmiðla vera mjög hissa á viðbrögðum almennings. Uppgjör ævi Arafats er hafið, og ýmis atriði koma upp á yfirboðið sem fáir vissu um, til að mynda að Arafat var með efnuðustu leiðtogum heims og var í sjötta sæti tímaritsins Forbes yfir ríkustu konunga, drottningar og einræðisherra. Þar var talið að hann ætti allt að þrjúhundruð milljónir dollara á leynilegum bankareikningum. Suha Arafat, ekkja Arafats, fékk í sumar tæplega ellefu milljónir dollara í greiðslu frá honum og sögusagnir eru um háar fjárhæðir á leynireikningum víða um lönd. Ráðgjafar og samstarfsmenn Arafats vísa þessu þó á bug og segja hann ekki hafa verið efnaðann, en hann var þekktur fyrir fábrotinn lífsstíl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×