Erlent

Þúsundir fylgdu Arafat til grafar

Meira en tíu þúsund Palestínumenn voru viðstaddir greftrun Jasser Arafat við höfuðstöðvar hans í Ramallah í gær þrátt fyrir að engir aðrir en fjölskyldumeðlimir og framámenn ættu að fá aðgang að henni. Hundruð lögreglumanna og öryggisvarða máttu sín lítils gegn þeim þúsundum Palestínumanna sem vildu kveðja Arafat í hinsta sinn og brutu sér leið inn á greftrunarstaðinn. Mörg þúsund Palestínumenn höfðu komið sér fyrir við höfuðstöðvarnar þegar þyrlur sem báru lík Arafats og palestínska ráðamenn komu frá Kaíró. Þar hafði minningarathöfn um Arafat farið fram að viðstöddum fulltrúum 60 ríkja sem voru saman komnir til að kveðja manninn sem var um áratugaskeið táknmynd sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna. Lögreglumenn og öryggisverðir reyndu að halda aftur af mannfjöldanum með því að skjóta í loftið en það dugði skammt til að halda aftur af fólki. Þegar tókst að lenda þyrlunum tók ekki betra við því fólk streymdi að þeim og tuttugu mínútur liðu áður en hægt var að opna dyr þeirra, hleypa fólki út og bera kistuna með líki Arafats á reitinn þar sem hann var greftraður. Á nokkrum stöðum í Mið-Austurlöndum efndu Palestínumenn til minningarathafna þar sem eftirlíking af kistu Arafats var borin um götur. Mörg þúsund manns tóku þátt í slíkri athöfn í Gaza sem fór fram á sama tíma og útförin í Ramallah. Suha Arafat, ekkja Jassers Arafat, tók þátt í athöfninni í Kaíró en fór ekki til Ramallah þar sem útförin fór fram. Hún hefur löngum verið umdeild og lenti í hörðum deilum við palestínska ráðamenn síðustu dagana sem Arafat lifði, sakaði þá um að reyna að ná til sín völdum og hindraði aðgang þeirra að Arafat á sjúkrabeði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×