Erlent

Svikarar lofa vinnu á Íslandi

Fjölmiðlar í Namíbíu hafa vakið athygli á fyrirtækinu Unique Jobs sem gefið hefur atvinnulausu fólki loforð um vinnu við sjávarútveg í Noregi, Grænlandi og Íslandi gegn 12 þúsund króna gjaldi. Klaus Andresen,konsúll Noregs í Windhoek í Namíbíu, segir í viðtali við The Namibian um helgina að honum hafi borist fjöldi fyrirspurna um landvistarleyfi frá fátæku fólki sem borgað hafi aleiguna til fyrirtækisins. Hann varaði við Unique Jobs, sem auglýst hefur laus störf í dagblöðum Namíbíu. "Hér eru á ferðinni svikarar sem verður að stöðva samstundis. Fólki verður mikið niðri fyrir þegar konsúlatið þarf að tilkynna því að það hefur verið féflett." Norski sendiherrann í Suður-Afríku, Jon Bech, varð einnig var við hina sömu svikara fyrir tæpu ári. Fjöldi ferðbúins fólks mætti þá í sendiráðið í Höfðaborg og tilkynnti að það hefði fengið atvinnu í Noregi. Allir höfðu borgað 4 þúsund krónur fyrir vinnuna en heyrðu svo aldrei meira frá atvinnumiðluninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×