Lífið

R-listinn fallinn?

Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda í næstu borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, fjölskyldur leysast upp á næsta ári vegna skuldsetningar og tvær kvikmyndir verða gerðar eftir bókum Arnaldar Indriðasonar. Þetta er á meðal þess sem völva Vikunnar sér fyrir sér að gerist í íslensku samfélagi á næsta ári og því þarnæsta. Það er engin lognmolla í spádómum völvunnar frekar en fyrri daginn. Hún sér fyrir sér að jörð fari að skjálfa við Vestmannaeyjar og Landsbankinn gleypi Íslandsbankann. Sú máltíð verður blóðug að mati völvunnar. Þá segir hún að niðurskurður verði áfram í heilbrigðiskerfinu og hún hefur áhyggjur af andlegri heilsu okkar. Almenningur hefur spennt bogann of hátt og getur ekki staðið undir skuldbindingum sínum á næsta ári. Þetta leiðir til upplausnar fjölskyldna í landinu og bankarnir sitja uppi með húseignir fólks. Þrjú hneykslismál verða í viðskiptaheiminum og miðill verður uppvís að því að féfletta andlega veikt fólk. Dópið flæðir yfir litlu byggðalögin og þar gengur illa að byggja upp atvinnu. Völvunni sýnist deyfð verða yfir forsætisráðherra á árinu og hún sér undirliggjandi ólgu í R-listanum og spáir nýjum borgarstjóra ekki velgengni í starfi. Það sem meira er, hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn sigri borgarstjórnarkosningarnar árið 2006. Tvær kvikmyndir verða gerðar eftir bókum Arnaldar Indriðasonar á næsta ári og völvan sér unga stúlku á kreiki í kringum Bubba Morthens, en hún varar gamla pönkarann við að fortíðin gæti læðst aftan að honum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.