Lífið

Eplið og Eikin, eða Eiríkur

"Pabbi er minn uppáhalds blaðamaður. Hann skrifar svo fallega og á auðvelt með að láta allt syngja. Svo er hann fyndinn og gaman að lesa það sem hann skrifar. Ég þekki alltaf orðin hans, jafnvel þótt nafnið hans sé ekki undir greininni. Hann er svo helvíti dramatískur, hann pabbi," segir hún hlæjandi; nýjasti blaðamaðurinn í bænum og dóttir Eiríks Jónssonar; Hanna Eiríksdóttir. Það var bara á dögunum sem hún hóf að skrifa fyrir mest selda tímarit landsins, Séð & Heyrt, en áður hafði hún labbað inn á ritstjórnina og sótt um vinnu sem hún fékk strax daginn eftir. "Ég er bara nýbyrjuð og þótt ég sé með blaðamannagráðu í farteskinu hef ég enga reynslu og hef ekki skrifað staf af viti í tvö ár. Mér fannst því sjokk að byrja; hvíslaði í símann því mér fannst allir hlusta, en það er mjög gaman í vinnunni núna." Hanna útskrifaðist úr tímaritablaðamennsku frá Flórídaháskóla árið 2002, en hélt til Perugia á Ítalíu til að nema hina rómantísku tungu áður en hún kom aftur heim til Íslands. "Ég bjó í Flórída á áttunda ár, en mamma bjó þar fyrir og mér hafði gengið illa í menntaskólanum heima. Dreif mig því út og leit á það sem ævintýri og hafði engu að tapa. Ætlaði reyndar alls ekki að koma heim strax og ætlaði beint í masterinn en klúðraði því og varð að fara heim vegna innflytjendalaganna ytra. Nú er ég mjög fegin að hafa komið heim því Bandaríkin gera menn þröngsýna og lokaða. Ég er opin manneskja en fann glöggt að ég var búin að vera of lengi úti, því Bandaríkin eru allt annað en frjálst land. Ég uppgötvaði svo á kaffihúsi í Róm að ég þurfti ekki að vinna í Ameríku til að verða hamingjusöm og það var léttir." Hún segir draum sinn alltaf hafa snúist um blaðamennsku og reyndar líka sjónvarpsmennsku, vegna þess hve Eiríkur faðir hennar sat lengi í sjónvarpsstól. "En ég er alltof feimin fyrir myndavélarnar og roðna of mikið fyrir sjónvarp. Því valdi ég tímaritaskrif í skólanum því þar hefur maður mesta svigrúmið og getur skrifað ítarlegri greinar um eitthvað sem manni þykir vænt um, eða bara hvað sem er. Ég er auðvitað enn að þróa minn stíl og þótt ég sé mjög lík pabba veit ég ekki hvort stíllinn sé sá sami, enda hefur hann svo mikla reynslu að baki. En ég fæ dugandi ráð og alltaf eina og eina athugasemd frá honum, sem ég tek vitaskuld fegins hendi," segir Hanna brosmild og heldur áfram að skrifa Íslendingasögur vorra tíma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.