Lífið

Kjöt fylgdi bókunum

"Það varð allt vitlaust. Morguninn eftir að Stöð 2 sagði frá þessu í fréttum fylltist búðin og hún var troðfull af fólki frá morgni til kvölds alveg fram að jólum," segir Guðbjörg Jakobsdóttir, sem rak Bókabúð Árbæjar. Henni blöskraði bóksala stórmarkaðanna og hóf að selja kjöt með bókunum fyrir jólin 1994. Það gerði hún í samvinnu við matvöruverslunina sem stóð við hlið bókabúðarinnar. Það er til marks um þróun mála að Guðbjörg hætti rekstri bókabúðarinnar fyrir fimm árum og hjónin sem ráku matvöruverslunina brugðu búi og þar er nú 11-11 verslun. Kjötsala bóksalans vakti ekki bara þjóðarathygli heldur heimsathygli. "Það hringdu fréttamenn frá Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi þannig að þetta varð rosa viðburður. Ég átti alls ekki von á því." Hin harða samkeppni knúði Guðbjörgu til að loka versluninni fyrir fimm árum. "Ég var ekki samkeppnishæf. Ég hefði þurft að eiga fimm svona litlar búðir til að geta barist við stórmarkaðina. Það þýddi ekkert að kaupa inn fyrir þessu einu búð, verðið frá birgjunum bauð ekki upp á það." Guðbjörg var lengi viðloðandi bóka- og ritfangasölu, bæði áður og eftir að hún rak Bókabúð Árbæjar. Nú hefur hún hins vegar snúið við blaðinu og nemur sálfræði við Háskóla Íslands.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.