Erlent

Páfagarður ósáttur við höfnun ESB

Páfagarður sakar Evrópusambandið um hræsni og nornaveiðar, fyrir að hafna Rocco Buttiglione í embætti dóms- og öryggismálastjóra sambandsins. Rocco Buttiglione er heittrúaður kaþólikki og náinn persónulegur vinur Jóhannesar Páls páfa. Hann er Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Silvios Berlusconi, og það var forsætisráðherrann sem tilnefndi hann í embætti dóms- og öryggismálastjóra Evrópusambandsins. Þeir sem eru tilnefndir til hárra embætta hjá Evrópusambandinu mæta þar í áheyrn þar sem þeir lýsa hugmyndum sínum um viðkomandi embætti og svara spurningum um sjálfa sig. Buttiglione var spurður um afstöðu sína til samkynhneigðra. Hann sagði að samkvæmt sínum trúarbrögðum væri samkynhneigð synd. Hinsvegar virti hann fullkomlega réttindi samkynhneigðra til þess að lifa sínu lífi, og myndi í embætti sínu standa traustan vörð um mannréttindi þeirra. Það dugði þó ekki til. Buttiglione var úthrópaður hommahatari og þaðan af verra, og nokkuð ljóst að hin nýja stjórn Evrópusambandsins yrði ekki samþykkt, á Evrópuþinginu, með hann innanborðs. Buttiglione ákvað því, í dag, að draga sig í hlé. Páfagarður hefur brugðist hart við árásunum á Buttiglione, og sakar Evrópusambandið um hræsni og nornaveiðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×