Innlent

Lægri matarskatt og betri skóla

Lækkun matarskatts til helmings og að fimmtán milljörðum verði varið í menntakerfið umfram áætlanir ríkisstjórnarinnar eru meðal þess sem Samfylkingin vill beita sér fyrir á komandi þingi. Áherslur flokksins voru kynntar á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í gær. Samfylkingin ætlar að flytja tillögu, með Vinstri grænum og Frjálslynda flokknum, um að Ísland verði tekið út af lista hinna sjálfviljugu þjóða. Eins að Alþingi lýsi yfir að stuðningurinn við innrásina í Írak hafi verið mistök. Stjórnarandstaðan vill einnig að sett verði á fót nefnd til að kanna forsendur stuðnings Íslands við innrásina. Þá verður einnig lagt til stofnun embættis talsmanns neytenda til að styrkja stöðu neytenda á hinum frjálsa markaði. Þá vill Samfylkingin lækka matarreikning fjölskyldna um fimm milljarða króna með því að lækka virðisaukaskatt á matvæli, vörur og þjónustu úr fjórtán prósentum í sjö prósent. "Að fjárfesting í menntakerfinu verði aukin um fimmtán milljarða er skilyrt því að hagvaxtarspár gangi eftir. Við viljum nota hagvaxtaraukann til að fjárfesta í menntakerfinu og lækka matarskattinn en ekki til að fella niður hátekjuskatt og lækka tekjuskattinn," segir Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann segir að með aukinni fjárfestingu í menntakerfinu skapist fjölbreyttara atvinnulíf. Því þurfi að nota hagvaxtaraukningu í skólana í stað þess að virkja og byggja nýjar álbræðslur. "Fólk vill fara í skólana og mikil eftirspurn er eftir hvers konar námi. Við verjum langminnstu til háskólastigsins af Norðurlandaþjóðunum eða 0,9 prósent af landsframleiðslu. Á sama tíma veita hin Norðurlöndin 1,2 til þremur prósentum til háskólanna," segir Björgvin. Að fótur sé settur fyrir menntasókn Íslendinga þar sem nemendum bæði í framhaldsskóla og háskóla sé vísað frá segir Björgvin vera hneyksli. Ljóst sé að Samfylkingin vilji fara hina leiðina og greiða leið fólks til mennta.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×