Erlent

Líf Bretans hangir á bláþræði

Líf bresks gísl í Írak hangir á bláþræði, en bresk stjórnvöld þvertaka fyrir að semja við hryðjuverkamenn. Gíslinn og fjölskylda hans grátbiðja um að lífi hans verði þyrmt. Breski gíslinn Kenneth Bigley er síðasti gíslinn af þremur í haldi sömu mannræningja, en hinir tveir hafa þegar verið drepnir. Þeir hóta að skera Bigley á háls fljótlega verði ekki orðið við kröfum þeirra. Bigley grátbiður Tony Blair um að þyrma lífi sínu á myndbandsupptöku sem birt var á íslamskri netsíðu í nótt. Hann endurtók í sífellu að hann vildi ekki deyja í Írak. Í morgun ávarpaði eiginkona Bigleys mannræningjana í sjónvarpi og bað þá um að hlífa eiginmanni sínum, hann væri góður maður sem hefði haldið til Íraks til að reyna að láta gott af sér leiða. Í morgun lýstu bresk yfirvöld því yfir, að þau semdu ekki við hryðjuverkamenn og mannræningja. Íröksk stjórnvöld tóku jafnframt af allan vafa um að hvorugum kvenfanganum, sem haldið er í Írak, yrði sleppt. Í gær komust á kreik sögusagnir um að annarri konunni yrði sleppt. Paul Bigley, bróðir gíslins, sakaði í kjölfar Bandaríkjastjórn um að hafa spillt fyrir því, að bróðir hans hlyti frelsi. Greinilegt væri að írakska ríkisstjórnin væri leppur Bandaríkjamanna sem gerði eins og þeir segðu. Tæknilega séð eru kvenfangarnir fangar bandaríska herliðsins í Írak. Mannræningjar, sem héldu tveimur ítölskum konum í gíslingu sinni, segjast nú hafa drepið þær, þar sem ítölsk stjórnvöld hafi ekki orðið við kröfum um að kalla hersveitir sínar heim frá Írak. Ítalar segja ekki rétt að taka mark á yfirlýsingum þessa efnis á vefsíðum, þar sem engar beinar sannanir hafi fengist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×