Erlent

Blair var varaður við vanda í Írak

Tony Blair var varaður við því fyrir stríðið í Írak, að hersveitir yrðu að vera þar árum saman til að tryggja einhverskonar stöðugleika. Sérfræðingar breskra stjórnvalda töldu engar líkur á gereyðingarvopnum í Írak, og að ástæða stríðsáhuga Bandaríkjamanna væri vilji Bush forseta til að ljúka verki föður síns. Þetta kemur fram í skýrslu sem bresk stjórnvöld fengu í hendur árið 2002, en Daily Telegraph hefur nú komið höndum yfir. Þykir skýrslan sýna vel, hversu miklar efasemdir Jack Straw, utanríkisráðherra, og embættismenn hans höfðu um stríðið í Írak. Ári fyrir upphaf stríðsins í Írak vöruðu þeir Blair við því, að hætta væri á því að annar einræðisherra tæki við völdum í Írak eftir að Saddam yrði komið frá, og að sá einræðisherra gæti haldið áfram þar sem Saddam hætti með þróun gereyðingarvopna. Skýrsluhöfundar sögðu engan vita hvað tæki við að lokinni innrás, en ljóst væri að stórt hersetulið þyrfti í landinu um árabil til að tryggja einhverskonar stöðugleika. Um ástæður stríðsins segir, að gabba verði Saddam til að gefa alþjóðasamfélaginu ástæðu til að ráðast inn í landið. Fram kemur að bresku embættismennirnir í utanríkisráðuneytinu telja ástæðu stríðsáhuga Bush Bandaríkjaforseta einkum vera óuppgerðar sakir Bush eldri við Saddam og vilji Bush yngri til að ljúka verði föður síns. Velheppnaðar aðgerðir í Afganistan sem og tortryggni gagnvart Sameinuðu þjóðunum og úrræðum þeirra eru einnig sagðir þættir í stríðsáhuganum. Í skýrslunni segir ennfremur, að nákvæmar rannsóknir á gereyðingavopnaeign Íraka sýni glögglega, að litlar sem engar framfarir hafi orðið hjá Írökum árin á undan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×