Erlent

Enginn Tsjetsjeni í hópnum

Enginn Tsjetsjeni er á meðal þeirra hryðjuverkamanna sem tekist hefur að bera kennsl á, eftir árásina á barnaskólann í Beslan. Þrátt fyrir það segja rússnesk yfirvöld að sjálfsstæðisleiðtogar Tsjetsjena beri ábyrgð á verknaðinum og hafa hótað að leita þá uppi og myrða hvar sem þeir eru í heiminum. Fram er komin myndbandsupptaka sem sýnir hvernig ástandið var í skólanum á meðan á umsátrinu stóð. Svo virðist sem hryðjuverkamennirnir hafi tekið myndirnar sjálfir, hugsanlega með því að nota tökuvél frá fréttamanni sem lést skömmu eftir að ráðist var inn í skólann. Af myndunum má ráða að sprengjur hafa verið tengdar út um allt og jafnvel við gíslana sjálfa. Ljóst er að aðbúnaður gíslanna, barna sem fullorðinna, hefur verið skelfilegur, fólkið situr samþjappað á gólfinu í hitakófi en fær hvorki vott né þurrt. Nú virðist sem hryðjuverkahópurinn hafi safnast saman í skóglendi í nágrenni Beslan morguninn fyrir árásina og þar hafi leiðtogi hópsins myrt einn úr hópnum til að tryggja skilyrðislausa hlýðni hinna sem eftir voru. Síðar um daginn sprengdi hann tvær konur úr hópnum í sama tilgangi enda virðist sem nokkrir mannræningjanna hafi verið á móti því að halda börnum í gíslingu. Varnarmálaráðherra Rússa lýsti því yfir í gær að búið væri að bera kennsl á lík ellefu hryðjuverkamanna af 32 og að í ljós hefði komið að enginn þeirra væri frá Tsjetsjeníu. Svo virðist sem ráðherrann hafi með þessu viljað bera brigður á þær ásakanir að þetta skelfilega hryðjuverk væri afleiðing vonlausrar stefnu Pútínstjórnarinnar í málefnum Tsjetsjeníu. Í dag bregður hins vegar svo við að Pútín hefur heitið ríflega 700 milljónum króna í verðlaun fyrir upplýsingar sem leitt gætu til handtöku tveggja helstu sjálfsstæðissinna Tsjetsjeníu, Shamils Basayevs og Aslans Maskhadovs sem eitt sinn var forseti héraðsins. Að auki hóta rússnesk stjórnvöld að bregðast við að fyrra bragði og ráðast á hryðjuverkamenn hvar sem þá er að finna. Rauði kross Íslands hefur hafið söfnun til stuðnings hjálparstarfi í Beslan. Með því að hringja í síma 907 20 20 renna þúsund krónur til hjálparsamtakanna. Féð sem safnast, verður notað til þess að styðja þá sem lentu í gíslatökunni í Beslan og aðstandendur þeirra, en þeir fá meðal annars áfallahjálp, sjúkraþjálfun og heimahjúkrun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×