Innlent

Hver í sinni skotgröf

"Ég er svartsýnni á að deilan leysist nú eftir fundinn en fyrir," sagði Finnbogi Sigurðsson, formaður Félags grunnskólakennara, eftir kjarafund kennara og sveitarfélaganna í gær. "Menn voru í sínum skotgröfum. Báðir aðilar eru ósveigjanlegir hvað varðar ákveðna þætti í viðræðum um vinnutímann," segir Finnbogi. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður launanefndar sveitarfélaganna, er ósammála Finnboga og segir ekkert frekar hilla undir verkfall nú en fyrir fundinn: "Það gerðist ekki mikið á fundinum en hann gekk ekkert mjög illa." Finnbogi segir samninganefnd kennara hafa lýst því óformlega yfir að kennarar geti fallist á að loka samningum með 35% hækkun launagjalda sveitarfélaganna. "Þeirra fjárhagsrammi nær ekki einu sinni tuttugu prósentum og því er mikið sem ber í milli," segir Finnbogi. Launanefndin kvikar ekki frá því tilboði. Birgir Björn segir viðræðurnar ekki hafa snúist um tilboð og gagntilboð síðustu daga. "Við vinnum eftir verkáætlun ríkissáttasemjara. Ekki stóð til að ræða kostnað og prósentur og ég veit eins og samninganefnd kennara að þegar við finnum rétta taktinn tekur aðeins fáeina daga að ná samningum." Finnbogi segir að hugað verði að undirbúningi barna fyrir verkfall nú á næstu dögum. Kennarar eigi eftir að skipa verkfallsstjórn sem skipuleggi og reki verkfallið ef af verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×