Erlent

Ísraelar grunaðir um njósnir

Nær tuttugu árum eftir að Ísraelar hétu því að njósna ekki um bandamenn sína Bandaríkjamenn er bandaríska alríkislögreglan, FBI, tekin til við að rannsaka hvort embættismaður í bandaríska varnarmálaráðuneytinu hafi látið Ísraela hafa leynileg gögn um stefnumörkun Bandaríkjastjórnar gagnvart Íran. Sá sem er grunaður um njósnirnar fæst við að greina upplýsingar á skrifstofu Douglas J. Feith, þriðja æðsta stjórnanda bandaríska varnarmálaráðuneytisins og eins helsta ráðgjafa Donalds Rumsfeld varnarmálaráðherra. Rannsóknin beinist að því hvort maðurinn hafi látið ísraelskan þrýstihóp í Washington hafa leynilegar upplýsingar sem þrýstihópurinn hafi síðan komið á framfæri við Ísraelsstjórn. Maðurinn hefur ekki verið handtekinn en talið er að hann kunni að verða handtekinn á næstu dögum. Bæði þrýstihópurinn, American Israel Public Affairs Committee, og Ísraelsstjórn neita því að stunda njósnir í Bandaríkjunum. Yuval Steinitz, formaður utanríkis- og varnarmálanefndar Ísraelsþings, sagði Ísraela hafa miklar áhyggjur af því að Íranar væru að koma sér upp kjarnorkuvopnum. "En ef þið haldið að þetta kunni að breyta fyrri ákvörðun okkar um njósnir í Bandaríkjunum er svarið nei," sagði hann. Í nóvember 1985 var bandarískur leyniþjónustumaður handtekinn fyrir njósnir í þágu Ísraela. Hann var fundinn sekur og situr enn í fangelsi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Ísraela til að fá hann leystan úr haldi. "Í kjölfar Pollard-málsins fyrir tuttugu árum var tekin sú ákvörðun að njósna ekki um Bandaríkin," sagði Steinitz og sagðist fullviss um að ákvörðuninni væri enn hlítt. Ef satt reynist að Ísraelar hafi njósnað um Bandaríkin má telja víst að málið verði hið neyðarlegasta fyrir Ísraela, sem treysta mjög á stuðning Bandaríkjanna, og einnig fyrir Bandaríkjastjórn, ekki síst fyrir Rumsfeld, sem hefur mikil áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×