Erlent

Hátt í 300 mótmælendur handteknir

Lögreglumenn í New York handtóku hátt í 300 manns eftir mótmæli gegn George W. Bush Bandaríkjaforseta og stefnu hans í Írak. Nokkur þúsund manns tóku þátt í mótmælunum aðfaranótt laugardags. Mótmælendur hjóluðu um götur New York, kölluðu slagorð gegn Bush og trufluðu umferð. Paul Browne, aðstoðarlögreglustjóri New York sagði hjólreiðafólkið hafa skapað glundroða í umferðinni og hættu fyrir ökumenn. Hann sagði mótmælendur ekki hafa farið eftir þeim reglum sem þeim voru settar og því hafi lögreglan ákveðið að handtaka þá. Mótmælendur sögðu hins vegar að mótmælin hefðu verið friðsamleg og að lögreglan hefði beitt óþarfa hörku. Búist er við miklum mótmælum í kringum flokksþing repúblikana sem hefst á morgun og eru mótmælin þegar hafin. Nokkur hundruð mæður efndu til mótmæla á föstudag og höfðu börn sín með í för. Þær eru í samtökum sem nefnast Mæður gegn Bush. Á fimmtudag. voru ellefu handteknir eftir að þeir afklæddust til að leggja áherslu á kröfur sínar um að Bush legði alnæmissmituðu fólki um heim allan hjálp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×