Erlent

Stálu Ópinu og Madonnu

Hinu fræga málverki Edvards Munch, Ópinu, var stolið frá Munch-safninu í Ósló í gær ásamt fleiri málverkum. Meðal þeirra var annað frægt verk eftir Munch, og heitir það Madonna. Tveir eða þrír vopnaðir menn gengu inn í safnið, hótuðu starfsfólki með byssum og fóru með málverkin út í bifreið sem beið fyrir utan safnið. Margir safngestir fylltust skelfingu og óttuðust jafnvel að þarna væru hryðjuverkamenn á ferðinni. Flóttabíllinn fannst fljótlega. Í honum voru sundurteknir rammar utan af málverkunum. Franskur útvarpsmaður, Francois Castang, sagðist hafa verið að skoða safnið þegar þjófarnir ruddust inn og komust á brott með málverkin. "Það sem er einkennilegt er að í þessu safni var enginn útbúnaður til að verja málverkin, engin viðvörunarbjalla," sagði Castang. "Málverkin voru einfaldlega hengd upp á veggina," sagði hann. "Það þurfti ekki annað en að toga í málverkin nógu fast til þess að bandið slitnaði - ég sá einn þjófanna gera það." Lögreglan kom á vettvang fimmtán mínútum síðar. Safngestum var smalað inn á kaffistofu safnsins. Til eru fjórar útgáfur af Ópinu. Tvær þeirra voru í Munch-safninu í Ósló, einkasafnari á þriðja eintakið og það fjórða er til sýnis í þjóðlistasafninu í Ósló. Síðastnefnda eintakinu var stolið árið 1994, en það fannst þremur mánuðum síðar. "Munch málaði þau öll, og þau eru öll jafn verðmæt," sagði Jorunn Christoffersen, talskona Munch-safnsins. "En það er samt ekki nokkur leið að selja þessi málverk, né heldur að verðleggja þau." Þrír Norðmenn voru handteknir eftir að stolna málverkið fannst árið 1994. Þjófarnir reyndu þá að fá peninga frá norska ríkinu í skiptum fyrir stolna málverkið, en að þeim kröfum var aldrei gengið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×