Erlent

Ópi Munchs rænt

Málverkin, Ópið og Maddonna, sem rænt var úr Munch safninu í Osló í dag, eru svo þekkt að ómögulegt verður fyrir þjófana að selja þau, segja listasérfræðingar. Það er því talið líklegt að ræningjarnir muni fara fram á lausnargjald fyrir málverkin.  Um klukkan ellelfu í morgun, á opnunartíma safnins, réðust tveir vopnaðir, grímuklæddir menn inn í sýningarsalinn. Þeir rifu málverkin niður af veggjunum og þustu út. Lögreglan hefur staðfest að meðal þeirra verka sem þeir höfðu á brott með sér var Ópið og Madonnan. Síðast sást til mannanna aka á brott á svartri Audi bifreið. Bifreiðin fannst skömmu síðar, mannlaus, en spítnabrak úr myndarömmum fannst. Fjöldi safngesta sáu til þjófanna og var eðlilega afar brugðið, en annar mannanna mun hafa ógnað fólki með byssu, og meðal annars beint henni að höfði safnvarðar. Fjórar upprunarlegar útgáfur eru til af Ópinu, frægasta verki Munch. Tvær þeirra eru í geymslu Munch safnins, ein hangir uppi í Listasafni Norðmanna, en heimsathygli vakti þegar henni var stoltið fyrir 10 árum. Sú fjórða er nú komin í hendur ræninga, sem allt tiltækt lið norsku lögreglunnar leitar að, úr lofti og á jörðu niðri. Mikill viðbúnaður er einnig á flugvöllum og landamærum. Interpol hefur einnig komið norsku lögreglunni til aðstoðar. Munch málaði Ópið árið 1893. Áætlað verðmæti verksins er um 4500 milljónir íslenskra króna. Það er talið ein mesta þjóðargersemi Norðmanna og er eitt þekktasta málverk veraldar, sem kennt er við expressionisma. Madonna er jafn gömul Ópinu og áætlað verðmæti hennar er um 1500 milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×