Erlent

Morðingi laus í London

Tuttugu og tveggja ára frönsk kona var myrt í Twickenham-hverfi, í suðvesturhluta Lundúnaborgar í fyrrinótt. Þetta er fimmta árásin af þessu tagi, sem gerð hefur verið í hverfinu, á skömmum tíma. Óttast er að einn og sami maðurinn hafi verið að verki í öll skiptin. Emelie Delagrange, lést á sjúkrahúsi í fyrrinótt af völdum höfuðáverka. Delgrange, sem var nýkomin til Bretlands til að læra ensku, fannst mikið slösuð í almenningsgarði í hverfinu og lést skömmu síðar. Lögregla kannar nú hvort einhver tengsl séu á milli dauða hennar og dauða 19 ára breskrar stúlku, Mörshu McDonnel, sem einnig fannst látin í almenningsgarði í hverfinu á síðasta ári. McDonnel lést einnig af völdum höfuðáverka. Lögreglan handtók nokkra í tengslum við morðið á McDonnel í fyrra, en enginn var ákærður. Á síðasta ári var einnig ráðist á tvær stúlkur, 17 og 18 ára gamlar, á svipuðum slóðum, og fyrr á þessu ári var þar ráðist á konu á fertugsaldri. Lögreglan segir óvíst að árásirnar tengist, en fólk í Twickenhamhverfinu er skelfingu lostið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×