Erlent

Helgidómurinn yfirgefinn

Vopnaðir fylgismenn sjíaklerksins Muqtada al-Sadr fjarlægðu í gær vopn sín úr mosku Imam Ali í Najaf þar sem þeir hafa hafst við meðan á tveggja vikna uppreisn þeirra hefur staðið. al-Sadr hafði þá fyrirskipað þeim að láta moskuna af hendi við trúarleiðtoga sjíamúslima og hafði Ali al-Sistani, helsti trúarleiðtogi sjíamúslima, samþykkt að taka ábyrgð á moskunni. Blaðamenn á vettvangi sögðu að þegar komið var fram á kvöld hafi engin vopn verið eftir í moskunni. Þar hafi aðeins verið óvopnaðir meðlimir Mahdisveita al-Sadrs og óbreyttir borgarar. Af og til mátti þó heyra skotbardaga geysa í nágrenni moskunnar. Innanríkisráðherrann Sabah Kadhim sagði lögreglu hafa haldið inn í moskuna og handtekið 400 vopnaða vígamenn. Þetta sögðu blaðamenn að stæðist ekki. Enginn lögreglumaður hefði stigið fæti inn í moskuna og þaðan af síður hefðu handtökur átt sér stað í henni. Talsmaður al-Sadr sagði að vopnaðir vígamenn Mahdisveitanna hefðu tekið sér stöður í gömlu borginni í Najaf og að þar myndu þeir halda áfram baráttu sinni gegn Bandaríkjaher og íröskum samverkamönnum þeirra. Harðir bardagar áttu sér stað í Najaf í fyrradag og frameftir morgni í gær. Um hádegisbilið sögðu írösk yfirvöld að 77 manns hefðu látist og 70 slasast í átökunum á þessum tíma. Aðstoðarmaður al-Sadrs fluttu ræðu hans við messu í Kufamoskunni, nærri Najaf. Þar réttlætti al-Sadr að vígamenn sínir hefðu leitað sér skjóls í helgidómi Imam Ali. Margir hafa orðið til að gagnrýna það framferði vígamannanna þar sem með því hafi þeir aukið hættuna á að moskan yrði fyrir skemmdum. "Eru þeir sem finna sér skjól í helgidómnum sekir og þeir sem varpa sprengjum á hann heiðvirðir?" spurði al-Sadr í gegnum aðstoðarmann sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×