Erlent

Stórar sprengingar í Najaf

Að minnsta tíu stórar sprengingar urðu í írösku borginni Najaf í gærkvöld, stuttu eftir að Ayad Allawi, forsætisráðherra Íraks, sendi sjíaklerknum Muqtada al-Sadr lokaákall um að afvopnast. Áður hafði al-Sadr fallist á friðarsamkomulag ríkisstjórnarinnar sem fól í sér að hann myndi afvopnast og yfirgefa helgar byggingar. Stuðningsmenn hans réðust hins vegar á lögreglustöð í borginni í gærmorgun með þeim afleiðingum að sjö létust og að minnsta kosti 31 særðist. Stuttu seinna birtist yfirlýsing frá talsmönnum sjíaklerksins þar sem sagði ekki kæmi til greina að taka neinum afarkostum og að hann myndi annað hvort falla sem píslarvottur eða vinna sigur í stríðinu. Þá sendi Allawi al-Sadr lokaákall og hét honum og mönnum hans vernd myndu þeir verða við kröfum stjórnarinnar. Ekki var ljóst hvar sprengingarnar urðu eða hvort manntjón hlaust af þegar Fréttablaðið fór í prentun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×