Erlent

Upplausnarástand í Ísrael

Upplausnarástand er í ísraelskum stjórnmálum eftir að flokksfélagar í Likud-flokki Ariels Sharons höfnuðu hugmyndum hans um samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Sharon hyggst þrátt fyrir þetta reyna að mynda stjórn en leiðtogar Verkamannaflokksins telja kosningar óumflýjanlegar. Sharon beið lægri hlut í atkvæðagreiðslu Likud-flokksins í gær þegar flokksmenn höfnuðu því að leyfa Sharon að mynda samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Þetta er áfall fyrir Sharon og gæti hindrað framgang áætlana um brotthvarf frá Gasa-ströndinni en samsteypustjórninni var einkum ætlað að tryggja framgang þess. Harðlínumenn í Likud-flokknum hafa frá upphafi lagst eindregið gegn þeim hugmyndum og tókst þeim að fá fimmtíu og átta prósent þeirra sem greiddu atkvæði í lið með sér. Þetta þykir niðurlæging fyrir Sharon en nánustu samstarfsmenn hans höfðu reynt allt hvað þeir gátu til að safna stuðningsmönnum til að tryggja hagstæða niðurstöðu. Harðlínumennirnir, með Silvan Shalom utanríkisráðherra og Benjamín Netanyauh fjármálaráðherra í broddi fylkingar, líta svo á að þeim hafi með sigrinum í gær tekist að bjarga Likud-flokknum frá því að klofna. Sharon kveðst ekki ætla að gefast upp og hefur gefið í skyn að hann kunni að ganga gegn vilja flokksmanna og mynda samsteypustjórn, þrátt fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar. Alls er þó óvíst að það geti gengið því leiðtogar Verkamannaflokksins hafa nú efasemdir um skynsemi samsteypustjórnar með Sharon sem veikan forsætisráðherra, án stuðnings eigin flokks. Þeir vilja frekar að gengið verði til nýrra kosninga. Á myndinni eru frá vinstri: Ehud Olmert aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, Ariel Sharon forsætisráðherra og Silvan Shalom utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×