Erlent

Sadr samþykkir frið

Harðlínuklerkurinn Múktada al-Sadr hörfaði í dag ásamt fylgismönnum sínum frá mosku í borginni Najaf og lýsti því yfir að skæruliðasveitir hans ætluðu að leggja niður vopn. Harðir bardagar hafa staðið í helgu borginni Najaf í um hálfan mánuð. Þar hafa Mehdi-hersveitir Múktada al-Sadrs annars vegar og bandarískar og írakskar sveitir hins vegar borist á banaspjótum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að miðla málum og ná friðsamlegri lausn deilunnar virtist sem hvergi væri vonarglætu að sjá. Síðast í gær vildi al-Sadr ekki hitta sendinefnd írakska þjóðarráðsins, sem skipuð var trúar- og stjórnmálaleiðtogum. En síðdegis var skyndilega komið annað hljóð í strokkinn: al-Sadr samþykkti að yfirgefa Iman Ali moskuna ásamt fylgismönnum sínum, og hann skipaði Mehdi-sveitunum að leggja niður vopn. Í morgun hótaði varnarmálaráðherra Íraks öllu illu, gæfust al-Sadr og menn hans ekki upp. Svo virðist sem sú hótun hafi dugað - þó að al-Sadr krefjist þess að sveitir Bandaríkjanna og írakskra stjórnvalda hörfi fyrst frá moskunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×