Erlent

Má hirða fangelsin

Fari svo að alríkisdómari taki völdin af Kaliforníu og færi fangelsiskerfi ríkisins undir stjórn alríkisstjórnarinnar virðist einum manni vera alveg sama. Sá heitir Arnold Schwarzenegger og er ríkisstjóri Kaliforníu. "Sama er mér. Hann má hirða það. Ekki græt ég það," sagði Schwarzenegger þegar hann var spurður hvort dómarinn ætlaði sér að láta verða af hótun sinni um að skipa nýjan stjórnanda yfir fangelsiskerfi ríkisins, sem er rándýrt og að flestra mati stjórnlaust. Spurningarinnar var Schwarzenegger spurður eftir að hann ræddi við Thelton E. Henderson alríkisdómara í hálftíma. Schwarzenegger kveðst ekki hafa spurt Henderson um fyrirætlanir sínar en taldi líklegra að dómarinn myndi velja að starfa með yfirvöldum í ríkinu en að taka völdin af þeim. Í síðasta mánuði tilkynnti Henderson fylkisstjórninni í Kaliforníu að vegna þess hversu mikil áhrif sérhagsmunahópar hefðu á stjórn fangelsismála, hversu kostnaðarsamt það væri orðið og stjórnlaust væri honum skapi næst að taka völdin af fylkisstjórninni og fela þau einhverjum sem kynni með þau að fara. Schwarzenegger virðist ekki hafa mikið meiri trú á fangelsiskerfinu. "Þegar ég varð ríkisstjóri blasti við mér fangelsiskerfi í upplausn, hulið þagnarhjúp þar sem enginn tók neina ábyrgð, hvorki fjárhagslega eða annars konar," sagði ríkisstjórinn þegar hann heimsótti fangelsið í Mule Creek. Fangelsið í Mule Creek er reyndar að sumu leyti lýsandi fyrir vandann í fangelsiskerfi Kaliforníu. Það var byggt fyrir 1.750 fanga en þar eru nú vistaðir 3.700 fangar. Schwarzenegger leit þó til kostanna við fangelsið og benti á að þar væri boðið upp á verknám og aðra menntun með það að markmiði að endurhæfa fanga. Það markmið hefur orðið að láta undan á undanförnum árum þegar refsingar hafa verið hertar og föngum fjölgað gríðarlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×