Erlent

Hóta gagnárásum á kjarnorkuver

Íranar hóta því að ráðast á kjarnorkuver Ísraela í Negeveyðimörkinni ef Ísraelar ráðast á kjarnorkuver í Íran. "Ef Ísraelar skjóta eldflaugum að Bushehr kjarnorkuverinu verða þeir að kveðja Dimona kjarnorkuverið sitt, þar sem þeir framleiða kjarnorkuvopn, um aldur og ævi," sagði Mohammad Baqer Zoldaqr, hershöfðingi og næstæðsti ráðandi Byltingarvarðarins. Ísraelar hafa ekki hótað að ráðast á kjarnorkuver Írana en hafa lýst því yfir að þeir muni ekki líða Írönum að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Fyrir 23 árum réðust ísraelskar herþotur á kjarnorkuver fyrir utan Bagdad, höfuðborg Íraks. Þá óttuðust þeir að Írakar væru að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Íranar þvertaka fyrir að þeir ætli að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Bandaríkjamenn og Ísraelar óttast hins vegar að það sé markmið þeirra. Ísrael er eina ríkið í Miðausturlöndum sem er talið að ráði yfir kjarnorkuvopnum. Ísraelar hafa alltaf neitað að staðfesta það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×