Erlent

Ákærðir fyrir hryðjuverk

Átta grunaðir hryðjuverkamenn hafa verið ákærðir fyrir samsæri um morð og önnur hryðjuverk. Tveir þeirra voru ákærðir fyrir að hafa undir höndum njósnagögn um fjármálastofnanir í New York, Washington og New Jersey í Bandaríkjunum. Níundi maðurinn var handtekinn fyrir ólöglega vopnaeign. Breska lögreglan handtók mennina átta fyrir tveimur vikum. Handtökurnar fylgdu í kjölfar aðgerða pakistönsku lögreglunnar. John Aschroft, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að þarlend yfirvöld kynnu að ákæra mennina. Einn hinna handteknu er sagður vera meiriháttar aðgerðastjóri al-Kaída hryðjuverkahreyfingarinnar. Sá gengur undir nöfnunum Abu Eisa al-Hindi og Abu Musa al-Hindi. Hann er grunaður um að tengjast eftirliti með bandarískum fjármálastofnunum vegna hugsanlegra árása. Mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa ætlað að nota efnavopn og sprengjur til árása á fólk.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×