Erlent

Fornt stefni skips fundið

Búið er að finna stefnið af breska herskipinu Mary Rose, sem sökk undan suðurströnd Englands, eftir sjóorrustu við frönsk herskip, fyrir tæpum 460 árum. Mary Rose var smíðuð á árunum 1509-1511 og þótti mikið stríðstól. Hún var fyrsta herskipið sem gat skotið breiðsíðu af fallbyssum sínum í einu, og var í miklu uppáhaldi hjá Hinriki áttunda, sem þá var konungur Englands. Mary Rose sökk eftir orrustu við frönsk herskip, árið 1545, og liggur á fimmtán metra dýpi rétt undan suðurströnd Englands. Allmörg ár eru síðan flakið af Mary Rose fannst og var því lyft upp á yfirborðið og prýðir nú breskt flotasafn. Skipið var þó ekki í heilu lagi, það vantaði á það stefnið, og var smíðað á það nýtt. Nú er stefnið semsagt fundið, og er timbrið mjög vel varðveitt. Óvíst er þó hvort stefninu á Mary Rose verði lyft upp á yfirborðið. Fornleifafræðingarnir hafa ekki nema þriggja vikna frest til þess að skoða það, því það á að dýpka hafsbotninn á því svæði sem skipið sökk, til þess að hin nýju herskip breska flotans geti siglt inn í flotahöfnina í Portsmouth. Fornleifafræðingunum er að sjálfsögðu mikið í mun að stefninu verði bjargað áður en dýpkunarvinnan hefst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×