Erlent

Öflugur jarðskjálfti í Kína

Hundruð þúsunda manna misstu heimili sín í öflugum jarðskjálfta í Kína í fyrradag. Ekki var skýrt opinberlega frá þessu fyrr en í dag. Jarðskjálftinn, sem mældist 5,6 á Richter-kvarða, varð í Ludian-sýslu í Yunnan héraði en sýslan er með þeim fátækustu í landinu. Það var lán í óláni að skjálftinn reið yfir snemma kvölds og því fáir gengnir til náða. Ekki er vitað um nema fjóra sem létust en hins vegar slösuðust sex hundruð manns, þar af tvö hundruð mjög alvarlega. Þúsundir húsa hrundu hins vegar til grunna og nú er verið að senda þúsundir tjalda til Ludian til þess að hýsa þá sem misstu heimili sín. Efnahagslegar afleiðingar skjálftans eru mjög alvarlegar fyrir þessa fátæku sýslu. Þar er mikil tóbaksrækt og sameiginlegur þurrkofn tóbaksbændanna er ónýtur. Tóbaksuppskeran stendur nú einmitt sem hæst og því fara forgörðum verðmæti sem fólkið má alls ekki missa. Þetta er þriðji meiriháttar jarðskjálftinn sem verður á þessu svæði á einu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×