
Erlent
Skandall í ólympíunefndinni
Búlgarskur meðlimur Alþjóðaólympíunefndarinnar var í dag leystur frá störfum tímabundið, vegna ásakana um spillingu, sem komu fram í breskum heimildaþætti. Hann segist hafa spilað með í þeirri von að geta upplýst um mútutilraun. Búlgarinn Ivan Slavkov er forseti búlgarska knattspyrnusambandsins og hefur átt sæti í Alþjóðaólympíunefndinni. Í heimildarþætti BBC, Panorama, ræðir maður sem BBC kallar serbneskan umboðsmann um að Slavkov geti sannfært nefndarmenn um að taka við mútum, þegar kæmi að vali borgarinnar sem heldur sumarleikana árið 2012. Fimm borgir keppast um leikana 2012; New York, Paris, London, Madrid og Moskva - og verður valið í júlí á næsta ári. Slavkov segist hafa grunað að ekki væri allt með felldu og að hann hefði spilað með í þeirri von að geta upplýst ef þetta væri raunveruleg tilraun til að múta nefndinni. Siðanefnd Ólympíunefndarinnar tók ekki mark á vörn Slavkovs og tilkynnti í dag um tímabundna afsögn hans meðan málið er til rannsóknar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ólympíunefndin liggur undir ámæli um spillingu og mútur en þessar ásakanir eru þær alvarlegustu síðan tíu meðlimir ráðsins voru reknir fyrir að hafa tekið við peningum og gjöfum í aðdraganda þess að vetrarólympíuleikunum 1998 var valinn staður í Salt Lake City.