Erlent

Mannskæðasta árás í mánuð

Yfir fimmtíu manns létust og að minnsta kosti 70 særðust þegar öflug bílsprengja sprakk í Baqouba í Írak í morgun. Þetta er mannskæðasta sprengjuárás í Írak síðan þeir tóku aftur við völdum fyrir nákvæmlega mánuði. Sprengingin átti sér stað utan við ráðningarstöð lögreglunnar í miðborg Baqouba. Fjöldi manna hafði safnast saman utan við ráðningarstöðina í þeim tilgangi að ganga til liðs við þjóðvarnarlið Íraka, þegar lítil Toyota-rúta sprakk í loft upp á markaðstorginu sem ráðningarstöðin stendur við. Svo öflug var sprengingin að gluggar í nærliggjandi kaffihúsum splundruðust, framhliðar húsa rifnuðu af og eldur kviknaði í fjölmörgum bifreiðum í nágrenninu. Allt tiltækt heilbrigðisstarfsfólk úr nærliggjandi bæjum hefur verið kallað út til þess að huga að hinum særðu. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka þegar líður á daginn. Síðan valdaskipti áttu sér stað í Írak fyrir mánuði síðan hafa fjölmargar sprengjuárásir átt sér stað í bænum Baquoba, sem er tæpa 50 kílómetra norður af Bagdad. Árásirnar hafa einkum beinst að þjóðvarnarliði Íraka og hersveitum Bandaríkjamanna. Mannfall í Írak í dag takmarkast þó ekki við sprengjuárásina í Baquoba, þar sem 7 írakskir lögreglumenn létust í morgun þegar þeir börðust við skæruliða ásamt pólskum og úkraínskum hersveitum í suðurhluta Íraks að sögn pólska varnarmálaráðuneytisins. 35 skæruliðar létust í bardögunum, en ekki varð mannfall meðal pólskra eða úkraínskra hermanna. 10 lögreglumenn særðust í átökunum og 40 skæruliðar voru handteknir. Aðeins þrír dagar eru þangað til 1000 manna hópur þingmanna og sendifulltrúa kemur saman í Bagdad, til þess að velja sveit 100 manna sem verður nýrri stjórn Íraka innan handar. Óttast er að árásirnar í dag séu skilaboð skæruliða fyrir fundinn í Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×