Erlent

Breytast í hrygnur

Þriðjungur hænga í breskum ám er að breytast í hrygnur vegna mengunar. Einkum eru það hormónaleifar í skólpi, ekki síst vegna getnaðarvarnarpilla, sem taldar eru valda þessu. Breska umhverfisstofnunin gerði rannsókn á 1500 fiskum í 50 breskum ám, og komst að því að ríflega þriðjungur hænga sýni merki þess að kynskiptast. Vísindamenn stofnunarinnar segja mikla ástæðu til að óttast langtímaáhrif þessa á fiskistofna, þar sem kynskiptir eða millikynja fiskar geti síður fjölgað sér. Beint samhengi væri á milli fjölda svokallaðra millikynja fiska og þess magns af skólpi sem beint væri í viðkomandi ár. Einkum væri mikið magn hormóna, einkum östradiols og estróns, talið leiða til kynskipta, en þessi hormón eru úrgangsefni úr konum sem taka getnaðarvarnapillu. Þeir hængar, sem orðið hafa fyrir kynskiptiáhrifum, eiga erfitt með að fjölga sér. Í fjölda þeirra reyndist aðeins aðeins ein sáðrás til staðar, en eggrásir höfðu myndast frá öðrum eða báðum kynkirtlum. Í sumum hænganna fundust eggfrumur í eistum. Vísindamennirnir bresku segja nauðsynlegt að grípa þegar til ráðstafana og hreinsa skólp mun betur. Nú sé verið að kanna hreinsunartækni og rannsaka, hvort að ekki sé hægt að hreinsa hormónin sem helst valda kynskiptum út úr skólpi áður en því er beint í ár og haf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×