Erlent

Ólst upp hjá kjúklingum

Sunjit-Kumar, 32 ára frá Fídjieyjum, gengur undir nafninu kjúklingamaðurinn. Hann lærir nú að umgangast menn á nýjan leik eftir að hafa alist upp með kjúklingum. Ævi Sunjit var ein samfelld sorgarsaga þar til formaður Rótarýfélags Fídjieyja kom honum til hjálpar fyrir skemmstu. Hann var lokaður inni í herbergi fyrstu ár ævi sinnar eða allt þar til faðir hans var myrtur og móðir hans framdi sjálfsmorð. Þá fékk afi hans forræði yfir honum, en ekki tók betra við. Afinn, sem ekki vissi hvernig ala bæri drenginn upp, lét hann dveljast meðal kjúklinga frá sex til níu ára aldurs. Sunjit tókst að flýja eftir að hafa dvalið í þrjú ár á meðal fuglanna og fannst skömmu síðar illa til reika úti á þjóðvegi. Þaðan var hann fluttur á heimili fyrir eldri borgara þar sem slæmt ástand hans kom í ljós. Sunjit gat hvorki talað né gengið en gaf þess í stað frá sér fuglshljóð og hoppaði um. Umsjónarmenn heimilisins vissu ekki hvað gera skyldi við hann og bundu hann því fastann við rúm sitt. Þar dvaldi hann í heil tuttugu ár eða allt þar til Elisabeth Clayton, formaður Rótarýfélagsins á Fídjieyjum, kom honum til hjálpar. Hún leggur nú alla sína krafta í að kenna Sunjit allt það sem hann á ólært og fer honum mikið fram að hennar sögn. Þótt ótrúlegt megi virðast sýnir hann hvorki merki um einhverfu né geðsjúkdóma, þrátt fyrir þá ómannúðlegu meðferð sem hann hefur mátt þola. Það er því vonandi að honum takist að komast til manns og gæfan fari loks að taka völdin í lífi þessa ógæfusama manns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×