Erlent

Frestur Yukos rennur út í dag

Mikhail Khodorkovsky, ríkasti maður Rússlands og fyrrverandi framkvæmdastjóri olíufyrirtækisins Yukos hefur beðið stjórn félagsins að nota hlutabréf sín og annarra til að greiða vangoldnar skattgreiðslur til rússneskra yfirvalda, sem að öðrum kosti gætu riðið fyrirtækinu að fullu. Yukos hefur frest þangað til í dag að greiða vangoldna skatta frá árinu 2000 að andvirði um 243 milljarða íslenskra króna. Rússnesk yfirvöld leituðu í skrifstofum Yukos í gær að skrám yfir hluthafa í fyrirtækinu og sagði talsmaður þess það benda til að yfirvöld séu að reikna út hlut hverra þau eigi að gera upptæk ef fyrirtækið reiðir ekki féð af hendi. Dómsúrskurður hindrar að Yukos geti selt eitthvað af eignum sínum til að greiða reikninginn. Khodorkovsky á, ásamt félögum sínum, um 44 prósent hlutabréfa í Yukos en hann hefur verið í fangelsi síðan í október. Rússnesk yfirvöld sýna engin merki um að vilja komast að málamiðlun og segja þetta lið í átaki gegn efnahagslegri spillingu. Aðrir telja aðgerðir yfirvalda gegn Khodorkovsky stafa af ótta við pólitísk afskipti hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×