Erlent

Ný öryggislög samþykkt í Írak

Ríkisstjórn Íraks hefur samþykkt ný öryggislög til að auðvelda baráttuna við herskáa uppreisnarmenn í landinu. Bardagar héldu áfram á götum Bagdad í dag. Róstursamt hefur verið í höfuðborg Íraks síðustu sólarhringa og telur bráðabirgðastjórnin í Bagdad mikilvægt að bregðast við með strangari öryggisreglum. Að sögn heilbrigðisyfirvalda féllu að minnsta kosti fjórir og yfir tuttugu særðust í hörðum götubardaga í dag. Þá særðust nokkrir lögreglumenn í árás sem gerð var á lögreglustöð í borginni. Öflugar sprengingar heyrðust í Bagdad í allan dag og virðist sem sprengjum hafi verið varpað á græna svæðið sem umlykur höfuðstöðvar Bandaríkjahers í borginni. Sömu sögu var að segja við skrifstofur stjórnmálaflokks nýs forsætisráðherra Íraks, Iyads Allawis. Þar sprungu fjórar öflugar sprengjur og urðu margir sárir. Í öðru hverfi borgarinnar fann lögregla bíl hlaðinn 750 kílóum af sprengiefni. Á sama tíma kynnti dómsmálaráðherra Íraka ný öryggislög stjórnarinnar til að bregðast við svo til endalausum skærum í landinu. Samkvæmt lögunum fá stjórnvöld auknar heimildir til að bregðast við með ýmsum hætti, s.s. með útgöngubanni og húsleitum, og þá geta öryggissveitir hneppt grunaða vígamenn fyrirvararlaust í varðhald í allt að 60 daga. Enda þótt Írakar hafi formlega tekið við völdum í landinu mun Bandaríkjaher áfram aðstoða Íraka í átökum gegn uppreisnarmönnum. Sú staðreynd stappar aðeins stálinu í vígamenn sem segjast fylgja Guði gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×