Erlent

Fimm látnir á Srí Lanka

Að minnsta kosti fimm manns létu lífið og um tugur særðist í sjálfsmorðsárás uppreisnarmanna í Kólombó á Srí Lanka í morgun. Hjördís Finnbogadóttir, talsmaður norrænu friðargæslunnar á Srí Lanka, segir spennu og ótta hafa aukist í landinu að undanförnu. Sjálfsmorðsárásin er sú fyrsta sem uppreisnarmenn gera á Srí Lanka frá því þeir undirrituðu samkomulag um vopnahlé í landinu í febrúar árið 2002 að frumkvæði Norðmanna. Tilræðismaðurinn var kona úr röðum Tamíl Tígra og sprengdi hún sjálfa sig upp við lögreglustöð í borginni, skammt frá skrifstofu forsætisráðherra landsins og bandaríska og breska sendiráðinu. Minnst fimm manns létust í árásinni, þar af fjórir lögreglumenn. Ekki er ljóst hvaða áhrif þessi atburður hefur á friðarferlið á Srí Lanka en áratugalöng borgarastyrjöld hefur kostað 64 þúsund mannslíf. Hjördís Finnbogadóttir, talsmaður norrænu friðargæslunnar á Srí Lanka, segir aukna spennu hafa verið í landinu undanfarnar vikur og ótti um að friðarferlið væri kannski ekki á réttri leið. Það væri bara vopnahlé sem stendur og því væri í rauninni enn stríð í landinu. Hægt er að hlusta á stutt viðtal við Hjördísi með því að smella á hlekkinn sem fylgir fréttinni í fréttayfirlitinu. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×