Erlent

Tíu féllu í loftárás

Í það minnsta tíu manns létu lífið þegar bandarískar herþotur vörpuðu sprengjum á íbúðarhús í írösku borginni Falluja í gær. Bandaríska herstjórnin sagði að íslamskir hryðjuverkamenn hefðu hafist við í húsinu og því hefði verið ákveðið að ráðast á það. Undanfarið hafa Bandaríkjamenn í auknum mæli gert loftárásir á hús þar sem þeir telja hryðjuverkamenn í hreyfingu Abu Musab al-Zarqawi hafast við. Al-Zarqawi segja þeir lykilmann í starfsemi al-Kaída í Írak. Í það minnsta fjórar loftárásir á hús vígamanna hafa verið gerðar síðasta hálfa mánuðinn og hafa tugir látist. Sjúkrabílar þustu að húsinu í austurhluta borgarinnar eftir loftárás Bandaríkjahers í gær. Þegar þangað var komið blöstu lík þeirra sem voru í húsinu og voru flest líkanna illa farin. Diaa Jumaili, læknir á sjúkrahúsinu í Falluja, sagði að lík tíu manna hefðu verið flutt á sjúkrahúsið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×