Erlent

Harmleikur í Súdan

Mesti harmleikur frá vargöldinni í Rúanda er yfirvofandi í Súdan. Milljón manna er á flótta undan blóðþyrstum skæruliðum og komið er í veg fyrir starf hjálparsamtaka. Í dag létu þungavigtarmenn þó til sín taka og beittu stjórnvöld í Kartúm enn meiri þrýstingi. Ástandið í Darfur í suðvesturhluta Súdans hefur hríðversnað undanfarið eitt og hálft ár og nú er svo komið að óttast er um líf allt að einnar og hálfrar milljónar íbúa þar. Fólkið, sem eru svartir Súdanar, er á flótta undan arabískum skæruliðum sem njóta óopinbers stuðnings stjórnvalda í höfuðborginni Kartúm. Tugir þúsunda hafa verið drepnir, fjöldi bæja brenndir til grunna, akrar brenndir og brunnar eyðilagðir. Þurrkur hefur bætt gráu ofan á svart, og nú er svo komið að mörg hundruð þúsund manns eru á vergangi án matar og vatns. Vannæring fer illa með börnin og örvænting gerir vart við sig. Vilji er til að bregðast við þessu ástandi, en stjórnvöld hafa nánast komið í veg fyrir að hjálparsamtök geti fengið nokkuð að gert. Í dag komu bæði Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna til Súdans til að þrýsta á um breytingu. Powell sagði mikilvægast að auka öryggisgæslu til að Íbúar Darfur óttuðust ekki að verða fyrir ofbeldi, einnig til að hjálparstarfið geti haldið óhindrað áfram. Kofi Annan tók í sama streng og sagði ástandið í Darfur vera alvarlegra en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Óttast er að meiri harmleikur sé í uppsiglingu en í Rúanda á sínum tíma, þar sem ein milljón manna féll fyrir morðingjahendi í einhverju grimmdarlegasta borgarastríði sem sögur fara af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×