Erlent

Múrinn ólöglegur

Hæstiréttur í Ísrael hefur skipað fyrir um að hluti öryggismúrs Ísraela sé ólöglegur og breyta verði staðsetningu hans að hluta, þar sem hann skilji þúsundir palestínskra bænda frá landsvæðum sínum. Samkvæmt niðurstöðu hæstaréttar í Jerúsalem verður að flytja um 40 kílómetra langan kafla öryggismúrsins, en byggingu þess hluta var hætt þegar í mars. 35 þúsund manns eru sögð myndu finna fyrir afleiðingum múrsins þar sem til stóð að reisa hann. Þúsundir bænda hefðu verið öðrum megin við múr, og ólífu- og ávaxtaræktarland þeirra hinum megin. Aðrir hefðu verið einangraðir frá fjölskyldum, vinnustöðum og skólum. Hæstiréttur Ísraels kvað múrinn í heild sinni löglegan og markmið hans lögmætt, en gæta yrði hófs og leita meðallags, þar sem ekki mætti algjörlega fórna lífsgæðum og lífsviðurværi Palestínumanna í nafni öryggis fyrir borgara Ísraels. Niðurstaðan veitir fordæmisgildi, en tuttugu önnur mál af sama meiði eru fyrir ísraelskum dómstólum. Að auki mun alþjóðadómstóllinn í Haag fjalla um múrinn eftir tíu daga, en Sameinuðu þjóðirnar leituðu afstöðu dómstólsins til lögmætis múrsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×