Erlent

Neyðarástand í Súdan

Neyðarástand ríkir í Súdan, þar sem þjóðernishreinsanir og þurrkur stofna lífi ríflega milljónar manna í hættu. Alþjóðasamfélagið og hjálparsamtök eru til reiðu, en stjórnvöld í Súdan koma í veg fyrir starf þeirra.  Ein komma tvær milljónir manna í Darfur-héraði í Súdan þurfa á neyðaraðstoð að halda. Þar búa einkum svartir Súdanir, en Janjaweed-skæruliðar, sem eru arabar og njóta stuðnings stjórnvalda, hafa hrakið fólkið úr bæjum sínum, brennt þá og ekrur fólksins, eyðilegt vatnsbrunna og drepið tugi þúsunda fólks. Fullyrt er að jaðri við þjóðernishreinsanir.  700 þúsund manns hafa flúið heimili sín vegna bardaga. Í dag kemur Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Darfur og Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er í höfuðborg Súdans, Khartoum. Báðir hafa varað stjórnvöld þar við og látið í veðri vaka, að öryggisráðið geti gripið til aðgerða verði ekki hætt að hindra störf hjálparstarfsmanna og böndum komið á skæruliðana. Nauðsynlegt er enda að grípa inn í atburðarásina þegar í stað. Talsmenn læknasamtakanna, Læknar án landamæara, segja eitt af hverjum fimm börnum í búðum sem þeir sinna vera hættulega vannært. Óttast er að allt að milljón gæti týnt lífi á næstu vikum og mánuðum þar sem skærur og þurrkur valda hungursneyð. Mannréttindafulltrúi á vegum Sameinuðu þjóðanna segir sterkar vísbendingar finnast um að framdir hafi verið glæpir gegn mannkyni, og ljóst er að sem stendur er neyðin hvergi í heiminum meiri, eða ástandið verra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×