Erlent

Ófremdarástand í Súdan

Yfir þrjátíu þúsund manns hafa verið drepnir í Darfur-héraði í Súdan undanfarið eitt og hálft ár. Þeir sem eftir lifa svelta heilu hungri. Það eru svartir afrískir ættbálkar og arabar, studdir af ríkisstjórninni, sem berjast í Darfur héraði sem er í Vestur-Súdan. Stjórnvöld landsins hafa verið sökuð um að reyna að útrýma afríkumönnunum. Sameinuðu þjóðirnar segja að auk þeirra þrjátíu þúsund sem hafa fallið í valinn undanfarna mánuði hafi um milljón manna hrakist frá heimilum sínum og svelti nú heilu hungri. Stjórnvöld í Súdan hafa lofað að afvopna arabísku hersveitirnar en það hefur verið lítið um efndir. Kófí Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur vakið máls á því að senda alþjóðlegt gæslulið til landsins. Að flatarmáli er Súdan stærsta ríki í Afríku og íbúarnir eru tæpar fjörutíu milljónir. Súdan var bresk nýlenda sem fékk sjálfstæði árið 1956. Lengst af síðan hafa múslimar stjórnað landinu. Þar hefur geisað nær látlaust borgarastríð og milljónir manna fallið í bardögum eða dáið úr hungri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×