Erlent

Bush vill gleyma þrætum

Andi friðar og vinsemdar sveif yfir vötnum á fundi Bush Bandaríkjaforseta og leiðtoga Evrópusambandsins í dag. Svo virðist sem samstaða ríki um að gleyma þrætum og leiðindum undanfarinna missera og horfa þess í stað til framtíðar. Bush er mikið í mun að hljóta stuðning við starfið í Írak og grafa stríðsöxina í deilum við Evrópuríki, ekki síst þar sem það yrði honum til framdráttar heima fyrir. Leiðtogar Evrópusambandsins lýstu í dag stuðningi við hugmyndir innan Atlantshafsbandalagsins um að bandalagið aðstoðaði við þjálfun hersveita Íraks. Bush var kampakátur með þetta. Bush sagðist halda að heiftúlegum deilum vegna stríðsins væri lokið. Sumir hefðu verið ósammála ákvörðun hans en hann væri viss að allir væru sammála um að lýðræðislegt umhverfi í Írak væri öllum fyrir bestu. Ákvörðun NATO kemur einnig í veg fyrir að leiðtogafundur bandalagsins í Istanbúl leysist upp í tómar deilur og leiðindi vegna Íraks. Bush hafði reyndar vonast til þess að NATO-ríkin tækju ríkari þátt í starfinu í Írak, en löngu var ljóst að svo yrði ekki, í það minnsta ekki í bráð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×