Erlent

Æviminningar Clintons koma út

Æviminningar Clintons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, koma út á morgun, en bókarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu. Fræðimenn telja að bókin skyggi á bæði Bush forseta og Kerry, frambjóðanda Demókrataflokksins. Óhætt er að fullyrða að engin bók hljóti jafn mikla athygli í Bandaríkjunum í sumar og minningar Clintons, enda hann án efa einhver litríkasti stjórnmálamaður síðustu áratuga - sama hvernig á það er litið. Allan Lichtman, sagnfræðingur við American University, segir öll þau hneyksli sem fólk hafi verið orðið þreytt á fyrir fjórum árum vera orðin fersk og áhugaverð að nýju á þessum „leiðinlegu repúblíkanatímum“ sem nú eru. Hann segir Clinton vera dularfullan og heillandi mann, hvort sem maður dái Clinton eða leiðist hann. Í bókinni segir Clinton álit sitt á ýmsum pólitískum deilumálum. Hann styður stefnu Bush í Írak í meginatriðum en vill þó að þeir sem stýrðu illri meðferð á föngum í Abu Ghraib fangelsinu verði dregnir til ábyrgðar, jafnvel menn í æðstu stöðum. En líklega eru það einkamál Clintons sem munu vekja mesta athygli enda munaði litlu að hann hrökklaðist frá völdum eftir að hann sagði ósatt um kynferðislegt samband sitt við Monicu Lewinsky. Nú velta margir fyrir sér hvort Clinton greini frá einhverjum leyndarmálum í bókinni. Sjáfur segist hann vona það því annars hafi hann gert mikil mistök með að skrifa 950 blaðsíðna bók þar sem ekkert kemur á óvart.  Með bókinn skyggir stjarna Clintons án efa á Bush forseta en áðurnefndur Allan Lichtman segir Clinton einnig geta haft neikvæð áhrif á flokksbróður sinn, John Kerry. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×