Erlent

Takmörkuð bjartsýni leiðtoga

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins leitast í dag við að ná samkomulagi um helstu deilumál sín sem hafa komið í veg fyrir að sátt hefur náðst um stjórnarskrá sambandsins. Þeir hófu tveggja daga fund sinn í gær en voru lítt bjartsýnir. "Ég er ekki sérlega bjartsýnn. Við eigum enn eftir að ljúka mjög erfiðum málum," sagði Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands sem er í forsæti Evrópusambandsins. Helstu deilumálin eru annars vegar kosningakerfið sem er notað við að taka ákvarðanir og hins vegar spurningin um hvort minnast eigi á guð í stjórnarskránni. Einfalda á kosningakerfið en deilt er um með hvaða hætti eigi að gera það. Írar lögðu fram tillögu um að við ákvarðanatöku þyrfti stuðning minnst fjórtán ríkja með 65 prósent íbúa Evrópusambandsins. Pólverjar og Spánverjar vilja að fleiri þjóðir þurfi að samþykkja mál svo stórþjóðirnar verði ekki of valdamiklar. Að auki á að afnema þá reglu að hvert ríki eigi sinn fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins. Þjóðarleiðtogarnir ræða einnig hver sé heppilegasti eftirmaður Romano Prodi, forseta framkvæmdastjórnarinnar, og hvort fella eigi niður neitunarvald einstakra ríkja í skattamálum, félagsstefnu og dómsmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×