Erlent

Réttað yfir auðjöfri

Enginn býst við að rússneski auðkýfingurinn Mikhail Khodorkovsky sigri í máli sem tekið var fyrir í dómi í Moskvu í morgun. Meira að segja lögmenn Khodorkovskyr gera ráð fyrir tapi, en segja ástæðurnar pólitísks eðlis. Mikhail Khodorkovsky er með auðugustu mönnum Rússlands og aðaleigandi olíufyrirtækisins Yukos. Hann var handtekinn fyrr á árinu og hefur setið í gæsluverðhaldi, sakaður um stórfelld fjársvik og skattsvik. Búist er við að málið verði eitthvert hið mikilvægasta sem rússneskir dómstólar hafa fengið til meðferðar frá falli Sovétríkjanna. Gagnrýnendur telja margir hverjir að í raun snúist málið um pólitíska baráttu, og að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, vilji sýna svokölluðum oligörkum, mönnum sem græddu á einkavæðingu ríkisfyrirtækja, hver ráði. Þeim sé hollast að efast ekki um völd Kremlar, en harðlínumenn þar hafa séð ofsjónum yfir meintum áhrifum auðjöfra á almenningsálit og stjórnmál. Lögmenn Khodorkovskys og viðskiptafélaga hans eiga von á því að þeir verði fundnir sekir og þurfi að sitja allt að tíu ár á bak við lás og slá. Vestrænir lögfræðingar, sem kynnt hafa sér málið, telja reyndar að Khodorkovsky og félagar séu ekki með tandurhreinan skjöld. Á föstudaginn verður mál rússneska fjármálaráðuneytisins gegn Yukos, félagi Khodorkovskys, tekið fyrir hjá öðrum dómstóli, en ráðuneytið vill að fyrirtækið greiði  247 milljarða í vangreidda skatta og það þegar í stað. Þar sem enn einn dómstóll hefur áður fryst allar eigur fyrirtækisins, segja sérfræðingar að Yukos fari í þrot úrskurði dómstóllinn að skattaskuldin skuli greidd þegar í stað. Þá er gert ráð fyrir því að eignum fyrirtækisins verði skipt upp, og að ríkisorkufyrirtækin Gazprom og Rosneft fái safaríkustu bitana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×