Erlent

Líf hundruða þúsunda í hættu

Líf hundruða þúsunda er í hættu í vesturhluta Súdans þar sem stríð skæruliða og stjórnvalda, þurrkur og hungursneyð hafa náð slíku umfangi að stórfellt átak þarf til að afstýra hörmungum. Í Darfur-héraði í Súdan blasir við skelfingarástand. Yfir milljón manna er á flótta, þar er þurrkur og drykkjarvatn því nánast ekki til staðar, stjórnvöld í landinu og skæruliðar berast á banaspjót og valda ringulreið sem leitt hefur til þess að bændur hafa ekki getað sáð, og innan vikna hefst rigningatímabilið. Skæruliðar hafa rænt og ruplað og stjórnvöld gera hjálparstofnunum erfitt um vik við að aðstoða þá sem eru í neyð. Carol Bellamy, yfirmaður Barnastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er á svæðinu til að kynna sér aðstæður og segist hún varla minnast þess að hafa komið á vettvang þar sem svo mikið er í húfi en svo lítið að gerast. Rauði krossinn, Sameinuðu þjóðirnar og frjáls félagasamtök verði nú að taka höndum saman og bæta úr ástandinu.  Rauði krossinn hefur sent út neyðarkall og telja menn þar að aðgerðirnar sem þörf er á í Darfur séu umfangsmeiri en í Írak og Afganistan svo dæmi séu tekin. Óttast er að stefni í mestu hörmungar í Afríku síðan í borgarstyrjöldinni í Rúanda á tíunda áratug síðustu aldar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×