Erlent

Írakar vilja Saddam í eigin hendur

Íraskir ráðamenn vonast til þess að Saddam Hussein og samverkamenn hans fyrir innrásina í Írak verði ákærðir áður en bráðabirgðastjórn Íraks tekur við völdum þann 30. þessa mánaðar. Þeir gera einnig ráð fyrir að Bandaríkjamenn afhendi þeim Saddam á næstu tveimur vikum. Talsmaður George W. Bush Bandaríkjaforseta sagði að Saddam yrði afhentur Írökum á viðeigandi tíma en neitaði að segja hvenær það kynni að vera. Eitt af því sem Bandaríkjamenn líta til er mat þeirra á því hversu vel Írakar geti treyst öryggisgæslu þar sem Saddam verður haldið. "Ég geri ráð fyrir að það verði gefnar út handtökuskipanir á hendur Saddam Husseins og annarra háttsettra embættismanna á næstu tveimur vikum," sagði Salem Chalabi sem hefur yfirumsjón með undirbúningi að réttarhöldum yfir fyrrverandi ráðamönnum fyrir ódæðisverk sem þeir fyrirskipuðu í stjórnartíð sinni. Hvort tveggja Írakar og Bandaríkjamenn hafa lýst áhuga á því að Írakar rétti yfir Saddam. Erfiðlega hefur gengið að setja upp dómstól til þess og fimm dómarar sem hafa verið taldir líklegir til að sitja í honum hafa verið myrtir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×