Erlent

Frestuðust um nokkra mánuði

Hryðjuverkaárásirnar á World Trade Center og bandaríska varnarmálaráðuneytið áttu fyrst að eiga sér stað í maí eða júní 2001 en ekki í september sama ár eins og raunin var. Þetta kemur fram í upplýsingum um undirbúning árásanna sem sjálfstæð rannsóknarnefnd hefur komist yfir. Samkvæmt þeim var árásunum frestað þar sem Mohamed Atta, leiðtogi sjálfsmorðsárásarmannanna var ekki reiðubúinn. Bandaríska dagblaðið Washington Post greindi frá þessu í gær. Þar segir að Khalid Sheik Mohammed, sem skipulagði árásirnar, hafi fengið Osama bin Laden til að fresta árásunum um nokkra mánuði. Ástæðan var vandamál við skipulagningu. Þessi atburðalýsing er þvert á kenningar bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Hún hefur sagt að árásirnar hafi verið skipulagðar með þeim hætti að hrinda hafi átt þeim í framkvæmd 11. september eða mjög nálægt þeim degi, hafi önnur dagsetning komið til greina væri það síðar á árinu. Helst hefur verið talið að árásunum hefði verið flýtt eftir að Zacarias Moussaoui, sem er sakaður um aðild að undirbúningi árásanna, var handtekinn í ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×